Hvernig kylfu ætti ég að spila með?

Hvorum megin ætti ég að halda á kylfunni?

Rétthentir halda vanalega á kylfunni vinstra megin við sig (left shooter) og örvhentir halda vanalega á kylfunni hægra megin við sig (right shooter).


Hvað skiptir máli við val á kylfu?

Lengd
Það sem skiptir mestu máli við val á kylfu er lengdin. Kylfan ætti að ná 1-2 sentimetra fyrir ofan nafla. Lengsta leyfilega lengd á kylfu er 104 cm (114 cm með hausnum). Fyrir yngri spilara má stytta kylfuna með því að fjarlægja fyrst gripið, saga ofan af skaftinu og setja gripið aftur á.

Hér að neðan má sjá ca. hvaða lengd af kylfu leikmaður ætti að nota eftir hæð leikmanns.

Hæð leikmanns Ráðlögð lengd
Undir 108 cm 60 cm (mini stick)
108 - 125 cm 62, 67 cm
125 - 137 cm 72, 75 cm
137 - 145 cm 80, 82 cm
145 - 163 cm 85, 87, 89 cm
158 - 170 cm 92 cm
165 - 183 cm 96 cm
183 - 193 cm 100 cm
188 cm + 101 cm +

Stífleiki skafts eða sveigja (e. flex)
Sveigja er það næst mikilvægasta þegar það kemur að því að velja kylfu og er vanalega gefin upp í millimetrum á kylfunni. Sveigjan segir til um hve mikið kylfan mun beygjast undan 30 punda þrýstingi og er mæld af Alþjóðabandýsambandinu (IFF). Því lægri tala því stífari er kylfan.

Reyndir leikmenn vilja frekar stífa kylfu fyrir fastari og nákvæmari skot. Samkvæmt núverandi reglum IFF þá mega kylfur ekki vera stífari en 23 mm. Við val á sveigju er gott að hafa í huga að því þyngri og skotfastari sem þú ert, því stífari kylfu ættirðu að vera með. Léttari leikmenn sem eru ekki eins skotfastir ættu ekki að vera með eins stífa kylfu. Einnig ber að hafa í huga að stíf kylfa er góð í skotum en mýkri kylfa er betri fyrir boltameðhöndlun.

Kylfuhaus
Það eru til margar tegundir af kylfuhausum sem hafa mismunandi lögun og stífleika. Stífari haus gefur fastari skot en mýkri haus hjálpar við boltameðhöndlun. Margir kylfuhausar eru með "krók" fremst sem hjálpar til við að stjórna kúlunni. Leikmenn beygja of kylfuhausinn sjálfir svo hann henti eigin stíl.

Lögun skafts og grip
Flestar kylfur eru með hringlaga (e. round) eða sporöskjulaga (e. oval) skafti. Það er ekki til nein regla um hvernig lögun á skafti leikmaður ætti að velja sér heldur fer það meira eftir smekk. Ef þú ert ekki viss um hvernig lögun þú ættir að velja þér þá er algengara leikmenn velji sér hringlaga grip. Dýrari kylfur eru oft með betri gripum sem hrinda frá sér vökva (svita).

Þyngd kylfu
Þyngd kylfu fer eftir því úr hvaða efni skaft, haus og grip eru. Reyndari leikmenn velja sér oftast léttari kylfu en þetta fer líka oft eftir smekk hvers og eins.